Sýndi Hollywood-stjörnum ofan í undraheim Lofthellis
Söngvari Dimmu og leiðsögumaðurinn Stefán Jakobsson fór með hóp af stórstjörnum ofan í Lofthelli í Mývatnssveit. Á morgun stígur Stefán loks aftur á svið í Bæjarbíói og segist varla geta beðið.
„Ég kann betur við að fara á bíl upp í helli því þá getur maður kynnst hópnum betur áður en maður fer ofan í hellinn. Það er lítið hægt að ræða saman um borð í þyrlu,“ segir Stefán Jakobsson, söngvari þungarokkshljómsveitarinnar Dimmu og leiðsögumaður í Mývatnssveit.
Stefán fór með hóp af stórstjörnum ofan í Lofthelli. Þar voru á ferð Orlando Bloom, sem lék meðal annars Legolas í Hringadróttinssögu, Mark Burnett, sem er hugmyndasmiður að flestum bestu sjónvarpsþáttum síðari ára, Mazdack Rassi, eigandi Milk Studios, og snjóbrettakappinn Trevor Jacob.
Lofthellir er 3.500 ára hraunhellir í óbyggðum Mývatnssveitar. Fór hópurinn þangað með þyrlu frá Vogafjósi. Samkvæmt Instagram-reikningi stjarnanna skemmtu þeir sér vel.
Stefán hefur verið leiðsögumaður lengi og farið með margar stórstjörnur ofan í Lofthelli, sem er ísilagður allt árið um kring. Daginn eftir að Hollywood-stjörnurnar kvöddu fór hann með 10. bekk Oddeyrarskóla ofan í hellinn.
„Ég er öllu vanur í þessu. Einu sinni var ég að hita upp fyrir Slash með fulla Laugardalshöll að kyrja með mér í söng en daginn eftir var ég að spila á jólakökuhlaðborði eldri borgara í Þingeyjarsveit. Þetta eru öðruvísi verkefni en bæði skemmtileg,“ segir Stefán.
Talandi um þungarokk þá mun Stefán stíga loks aftur á svið með Dimmu á morgun og halda tónleika í Bæjarbíói. Dimma gaf út plötuna Þögn fyrir skömmu og blæs loks í rokklúðurinn fyrir áhorfendur.
„Þetta er skrýtin tilfinning sem kraumar í maganum. Það er eiginlega eins og ég sé að fara að gera eitthvað ólöglegt,“ segir Stefán og hlær.
Söngvarinn hefur nýtt Covid-tímann til að gera upp bílskúrinn sinn í Mývatnssveit og hugmynd fæddist þegar Menningarfélag Akureyrar var í óvissuferð um sveitina.
„Þau voru að fara í Jarðböðin en vantaði smá uppfyllingu þannig að ég blés í tónleika heima í skúr sem heppnuðust vel. Svo vel að ég er byrjaður að vinna að því að hafa tónleika þar einu sinni í viku í sumar.
Ef fólk er á ferðalagi hér í sveitinni og vill kíkja á tónleika, þá er það í boði, enda er þá afskaplega stutt í vinnuna,“ segir Stefán. ■
Þetta er skrýtin tilfinning sem kraumar í maganum. Það er eiginlega eins og ég sé að fara að gera eitthvað ólöglegt.